Raphael Varane er líklega á förum frá Manchester United en það verður sennilega ekki fyrr en í sumar. Þetta segir í frétt The Sun.
Varane hefur misst sæti sitt í byrjunarliði United og er á eftir mönnum eins og Harry Maguire og Johny Evans í goggunarröðinni.
Hinn þrítugi Varane ætlar sér því annað en The Sun segir að Erik ten Hag vilji alls ekki selja leikmanninn í janúar þar sem hann vill hafa hóp sinn sem breiðastan til þess að keyra á topp fjóra í ensku úrvaldseildinni.
Það er áhugi á Varane víða en líklegast er að hann endi á Ítalíu eða í Sádí-Arabíu. Verðmiðinn er um 17-20 milljónir punda.
Varane gekk í raðir United frá Real Madrid 2021 og er einn best launaði leikmaður liðsins með 340 þúsund pund í vikulaun.