Það er talið að framtíð Jadon Sancho hjá Manchester United muni skýrast eftir að Sir Jim Ratcliffe hefur störf hjá félaginu. Mirror fjallar um málið.
Ratcliffe er að eignast 25% hlut í United en ekki er ljóst hvenær það fer í gegn. Mun hann taka yfir fótboltahlið reksturs félagsins.
Sancho á í stríði við stjórann Erik ten Hag og er algjörlega úti í kuldanum. Hann fær ekki að koma nálægt aðalliðinu.
Dagar Sancho á Old Trafford eru líklega taldir og hefur hann verið sterklega orðaður við Juventus og einnig sitt gamla félag Dortmund.
Sancho kostaði United 73 milljónir punda þegar hann kom frá Dortmund 2021 og því er talið að Ratcliffe vilji skoða hugsanlegar lausnir áður en félagið losar svo rándýra fjárfestingu á tombóluverði.
Þrátt fyrir þetta er talið líklegast að Sancho hafi spilað sinn síðasta leik fyrir United.