Fjögur kvennalið í knattspyrnu neita að mæta til leiks gegn liði Rossington Ladies, ástæðan er sú að transkona er í liðinu.
Um er að ræða áhugamannadeild í Sheffield á Englandi þar sem konur leika knattspyrnu sér til gamans.
Francescu Needham er 31 árs gömul transkona sem leikið hefur með Rossington en hún er sökuð um að hafa meitt andstæðing sinn alvarlega í leik á dögunum.
Félög í deildinni hafa eftir það atvik neitað að mæta Rossington á meðan Neddham er í liðinu.
Hið minnsta fjögur lið hafa neitað að mæta til leiks og hefur Needham því ákveðið að draga sig til hlés svo liðsfélagar hennar geti spilað leikina.
Hún ætlar hins vegar að fara í málaferli og segir að sér sé mismunað. „Ég tek þeim áskorunum sem fylgja þessu á meðan liðin neita að spila gegn mér,“ segir Needham.
Telegraph fjallar um málið og segir mikla ólgu vera vegna málsins.