Það er enn óljóst hvert næsta skref landsliðsfyrirliðans Arons Einars Gunnarssonar verður á ferlinum.
Aron er á mála hjá Al Arabi en hefur ekkert spilað undanfarna mánuði. Hann er að öllum líkindum á leið frá félaginu á láni og er talið líklegt að það verði í annað félag í Katar.
Málið var til umræðu í hlaðvarpsþættinum Dr. Football í gær. Þar vakti Jóhann Skúli Jónsson athygli á því að Aron hafi heimsótt Gylfa Þór Sigurðsson fyrir nýafstaðinn landsleikjaglugga. Gylfi er auðvitað á mála hjá Lyngby í dönsku úrvalsdeildinni.
„Erum við ekki að treysta á það að félagi okkar rétt fyrir utan Kaupmannahöfn, Freyr Alexandersson (þjálfari Lyngby), sé bara að fara að sækja hann í Lyngby?“ spurði Jóhann í þættinum.
„Ég las þann leikþátt,“ sagði hann enn fremur um heimsókn Arons til Gylfa.
Þrátt fyrir að vera ekki að spila í Katar var Aron í landsliðshópi Íslands sem mætti Slóvakíu og Portúgal nú í landsleikjaglugganum. Hann lék um hálftíma gegn Slóvökum en var ekki með gegn Cristiano Ronaldo og félögum í Portúgal.