Brasilíska ungstirnið Endrick mun ganga í raðir Real Madrid í sumar. Stór ástæða fyrir því er Cristiano Ronaldo.
Endrick, sem er á mála hjá Palmeiras í heimalandinu, mun ganga í raðir Real Madrid þegar hann verður 18 ára gamall.
Ronaldo er auðvitað goðsögn hjá félaginu og spilar það inn í að hinn bráðefnilegi Endrick valdi það, en mörg stórlið sýndu honum áhuga.
„Draumur minn frá því ég var barn hefur verið að spila fyrir Real Madrid. Cristiano Ronaldo er fyrirmyndin mín,“ segir Endrick.
„Það verður mikill heiður að klæðast sömu treyju og hann,“ bætir hann við.
Oft er talað um hvort Ronaldo eða Lionel Messi sé betri fótboltamaður en ljóst er hvar Endrick stendur þar.
„Messi er frábær en ég er meiri aðdáandi Ronaldo.“