Jóhann Berg Guðmundsson bar fyrirliðaband Íslands í kvöld er liðið mætti Portúgal í undankeppni EM.
Ísland spilaði þéttan og fínan varnarleik í viðureigninni en Portúgal er með frábært lið og skoraði tvö mörk í 2-0 sigri.
Frammistaðan var þó mun betri en gegn Slóvakíu á dögunum þar sem Ísland fékk skell, 4-1.
,,Varnarlega vorum við mjög solid og fengum nokkur færi, það var alltaf að fara að gerast en við vorum þéttir til baka og sköpuðum okkur sénsa sem við gátum klárað,“ sagði Jóhann Berg við Stöð 2 Sport.
,,Þetta var frábært skot hjá Bruno þarna og við hefðum kannski átt að vera aðeins sneggri út í hann en svona er þetta bara. Það voru góðir og jákvæðir punktar í þessu.“
,,Þetta er eitt skref fram á við og vonandi fáum við þetta playoff í mars og þá tökum við fleiri fram á við og komum okkur á EM.“
,,Þetta eru frábærir leikmenn, það er ekki bara einn, ekki bara þessi númer sjö heldur aðrir sem eru ansi góðir. Þetta var fínt test fyrir okkur í dag.“
Jóhann Berg á þar auðvitað við Cristiano Ronaldo sem var fremstur hjá Portúgal í kvöld.