Emmanuel Petit fyrrum miðjumaður Arsenal telur að félagið sé að fara mjög illa með hæfileika Declan Rice.
Rice var keyptur til Arsenal í sumar frá West Ham fyrir 105 milljónir punda.
Petit telur að Mikel Arteta sé að spila honum í rangri stöðu og að hæfileikar hans nýtist ekki sem best.
„Helsta verkefni Rice á að vera að halda jafnvægi í liðinu og vinna boltann aftur fyrir liðið,“ segir Petit.
Rice hefur hins vegar spilað framar. „Hann gerir þá hluti svo vel, ég tel að hæfileikar hans nýtist ekki í þessu hlutverki sem átta á miðsvæðinu. Hann er settur í hlutverkið sem Granit Xhaka var í.“
„Þú getur ekki beðið hann að spila eins og Xhaka gerði í fyrra því það er ekki hans staða.“
„Hans besta staða er að vera sitjandi miðjumaður og þar á Arteta að spila honum.“