„Mér líst rosalega vel á þetta og er mjög spenntur fyrir þessu verkefni. Hér er geggjuð aðstaða og flottur leikmannahópur. Ég þarf bara nokkra daga í frí í viðbót og svo keyrum við þetta í gang. Maður er strax kominn með hugann við þetta,“ sagði Rúnar við 433.is eftir undirskrift í dag.
Rúnar segir að hann hafi heillast fljótt af því sem Framarar höfðu upp á að bjóða.
„Þeir þurftu ekkert að sannfæra mig sérstaklega mikið. Ég hef séð þennan leikmannahóp sem þeir búa yfir, mér finnst hann spennandi.
Ég þekki mjög marga góða Framara sem ég kann mjög vel við og hef fengið símtöl frá nokkum góðum sem hafa hvatt mig í þetta. Það var ekkert flókið fyrir mig að velja Fram.“
Rúnar er metnaðarfullur og setur markið á að berjast um að vera í efri hluta Bestu deildarinnar að ári.
„Langtímamarkmið mín eru alltaf að vinna einhverja titla. Til þess er maður í þessu. En maður þarf að hafa markmið sem eru raunhæf að ná og við byrjum á því á fyrsta árinu að reyna að koma okkur nær topp sex, berjast um að komast þangað inn. Það er ekki víst að það takist en ég tel leikmannahópinn í stakk búinn til að takast á við þá áskorun.“
Nokkur félög viðruðu áhuga á að ráða Rúnar til starfa, en Fram varð fyrir valinu.
„Ég er búinn að fá nokkur símtöl. Það var Fram og eitt í viðbót sem er ekki í sömu deild sem var ofboðslega áhugasamt líka,“ sagði Rúnar en vildi ekki nefna umrætt félag, sem spilar í neðri deild.
„Það var mjög spennandi en á endanum er mitt val Fram þar sem félagið er í efstu deild, er á mjög góðum stað og hér er mikil uppbygging í gangi. Mig langaði að vinna áfram í efstu deild og því fannst mér þetta mjög spennandi.“
Rúnar var auðvitað þjálfari KR þar til félagið ákvað að framlengja ekki við hann á dögunum. Kemur til greina að sækja leikmenn þaðan?
„Ég hef ekki heyrt í einum eða neinum. Ég er ekki byrjaður að hugsa út í þá hluti en ég á ekki von á því að ég fari að taka einhverja leikmenn úr KR.“
Viðtalið í heild er í spilaranum.