Enska úrvalsdeildarfélagið Arsenal hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem varpað er ljósi á meiðsli sem miðjumaður liðsins, Mohamed Elneny hlaut á æfingu á dögunum. Ljóst er að hann verður lengi frá.
„Eftir að hafa meiðs á æfingu hafa frekari rannsóknir staðfest að Mohamed Elneny hlaut töluverð meiðsli á hægra hné,“ segir meðal annars í yfirlýsingu Arsenal.
Leikmaðurinn hefur gengist undir aðgerð í London en ekki er hægt að gefa upp tímaramma á því hvenær hann getur snúið aftur til æfinga með liðinu.
„Öll hjá félaginu munu veita Mo allan þann stuðning sem hann þarf og aðstoða hann að fullu við að snúa aftur eins fljótt og hægt er.“
Elneny hafði verið á fínu skriði með Arsenal sem situr á toppi ensku úrvalsdeildarinnar um þessar mundir.
Arsenal hefur, í ljósi meiðsla Elneny og smávægilegra meiðsla Thomas Partey, leitað á félagsskiptamarkaðinn eftir styrkingu og breidd inn á miðsvæðið.
Ítalski miðjumaðurinn Jorginho hefur lokið læknisskoðun hjá félaginu og mun á næstu mínútum skrifa undir samning við Arsenal sem greiðir Chelsea 12 milljónir punda fyrir leikmanninn.