Brasilíska goðsögnin Marta hefur spilað sinn síðasta leik á heimsmeistaramóti. Þetta varð ljóst í dag.
Brasilía féll óvænt úr leik strax í riðlakeppninni á mótinu sem nú stendur yfir. Þetta varð ljóst með markalaustu jafntefli gegn Jamaíka í dag. Síðarnefnda liðið fylgir Frökkum upp úr riðlinum.
Þetta er í fyrsta sinn sem Brasilía fer ekki upp úr riðlinum síðan 1995.
Marta, sem er orðin 37 ára gömul, var að taka þátt í sínu sjötta heimsmeistaramóti. Þetta var þó jafnframt hennar síðasta. Lauk því fyrr en búist var við og viðurkenndi Marta eftir leik að þetta væru mikil vonbrigði. Fyrir mótið hafði hún greint frá því að þetta HM yrði hennar síðasta.
Hún lék á sínu fyrsta heimsmeistaramóti 2003, aðeins 17 ára gömul.
Marta var lengi talin ein besta, ef ekki sú besta, í heimi.
Marta hefur ekki lagt skóna á hilluna alfarið en hún spilar með Orlando Pride í Bandaríkjunum.