Ísak Andri Sigurgeirsson er orðinn leikmaður IFK Norrköping í Svíþjóð en félagaskipti hans þangað eru staðfest í gagnagrunni KSÍ.
Ísak flaug til Svíþjóðar í morgun en sænska félagið kaupir hann frá Stjörnunni.
Ísak á að fylla í skarð Arnórs Sigurðssonar sem fór frá Norrköping í sumar og gekk í raðir Blackburn á Englandi.
Ísak er 19 ára gamall kantmaður sem hefur verið einn besti leikmaður í Bestu deildinni þetta sumarið.
Andri Lucas Guðjohnsen, Arnór Ingvi Traustason og Ari Freyr Skúlason eru leikmenn Norrköping sem er í sænsku úrvalsdeildinni.