Mason Greenwood gæti verið að fara frá Manchester United ef marka má nýjustu fréttir.
Kappinn bíður enn eftir því að vita um örlög sín eftir að mál gegn honum var látið niður falla fyrr á árinu.
Um eitt og hálft ár er liðið frá því að hinn 21 árs gamli Greenwod var handtekinn og kærður fyrir nauðgun og ofbeldi í nánu sambandi.
Ekki var ákært í málinu eftir að vitni breyttu framburði sínum og ný gögn komu fram í málinu. United ákvað þá að hefja rannsókn á málinu.
Þeirri rannsókn er ekki lokið. Æðstu menn hjá félaginu eru enn að íhuga hvað skuli gera með Greenwood, sem var einn efnilegasti leikmaður heims áður en mál hans kom upp.
Samkvæmt heimildamanni breska götublaðsins The Sun er Greenwood orðinn ansi þreyttur á að bíða og vill svör sem fyrst. Kappinn vill byrja aftur að spila fótbolta.
Nú hefur Greenwood skráð glæsilegt hús sitt til leigu og gefur það sterklega í skyn að hann sé að flytja.
Greenwood hefur verið orðaður við lið utan Englands.