Lionel Messi, fyrrum leikmaður Paris Saint-Germain, er sagður hafa rætt við Kylian Mbappe áður en hann yfirgaf félagið á dögunum.
Messi hefur skrifað undir samning við Inter Miami í Bandaríkjunum og leikur sinn fyrsta leik líklega í næsta mánuði.
Mbappe er sjálfur sterklega orðaður við brottför frá PSG og þá sérstaklega til Real Madrid.
Samkvæmt Defensa Central á Spáni þá hvatti Messi félaga sinn Mbape til þess að yfirgefa frönsku höfuðborgina í sumar.
,,Ég væri frekar til í að þú myndir semja við Barcelona en ef þú vilt fara til Real Madrid, gerðu það. Þú átt skilið þá áskorun,“ er Messi sagður hafa sagt við Mbappe.
Mbappe vill sjálfur komast til Real samkvæmt nýjustu fregnum en hann er bundinn PSG til næsta árs.
Ef PSG ákveður að selja ekki í sumar á félagið í hættu á að missa framherjann frítt næsta sumar.