Íþróttavikan kemur út á 433.is og í Sjónvarpi Símans alla föstudaga. Þar fá þeir Helgi Fannar Sigurðsson og Hrafnkell Freyr Ágústsson til sín góða gesti og í þetta skiptið mætti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir til þeirra félaga.
Sparkspekingurinn Kristján Óli Sigurðsson mætti þá til að ræða landsleiki Íslands gegn Slóvakíu og Portúgal á dögunum. Báðir töpuðust.
„Allt í lagi ekki gott. Spilamennskan var á köflum fín en það sem skiptir mestu máli eru stigin og þau voru núll. Við verðum aðeins að fara að rífa okkur í gang,“ sagði Kristján um fyrstu landsleiki Age Hareide.
Kristján leyfir sér þó að vera bjartsýnn fyrir framhaldinu.
„Við fáum Aron (Einar Gunnarsson) inn í næsta leik og svo er ég að gæla við að gulldrengurinn Gylfi Sigurðsson mæti. Þá er von, sérstaklega í gegnum umspilið í mars.“
Willum Þór Willumsson kom frábærlega inn í liðið í leikjunum en hann var ekki í náðinni hjá Arnari Þór Viðarssyni.
„Það er lögreglumál. Hann var langbesti maðurinn yfir þessa tvo leiki. Við erum 300 þúsund manna þjóð og höfum ekki efni á að hafa svona menn utan hóps.“
Spjallið við Kristján í heild er í spilaranum.