Steve Nicol, fyrrum leikmaður Liverpool, hefur sagt frá ótrúlegu atviki sem átti sér stað fyrir 33 árum síðan.
Nicol samdi við Liverpool árið 1981 en hann lék með liðinu í 13 ár og var lengi mikilvægur hluti af leikmannahópnum.
Nicol missti af óvæntu tapi gegn Crystal Palace í undanúrslitum enska bikarsins árið 1990 en ferðaðist með liðinu sem snæddi kvöldverð saman eftir tapið.
Hann varð dauðadrukkinn í rútunni á leiðinni heim og ákvað á veitingarstaðnum að kveikja í hári eiginkonu vinar síns, Gary Ablett.
,,Ég var svo dauðadrukkinn á þessum tímapunkti en það gekk upp því allir voru svo miður sín. Ég náði að halda smá stemningu á meðal þeirra,“ sagði Nicol.
,,Við fengum okkur kvöldmat og eiginkona Gary Ablett var hliðina á mér með sitt risastóra hár, það var eins og runni væri á hausnum á henni.“
,,Ég sit þarna reykjandi og horfi á hárið og af einhverjum ástæðum hugsa ég með mér: ‘hvað myndi gerast ef ég kveiki í þessu.’
,,Ég ákveð að færa kveikjarann nær hausnum á henni og þá fór allt af stað. Gary öskraði á mig og spurði mig hvað í andskotanum ég væri að gera, hann slökkti í eldinum með eigin jakka.“
,,Þetta hljómaði eins og góð hugmynd á þessum tíma en ekki sú sniðugasta í sögunni.“