Enska úrvalsdeildin vill að Chelsea sýni fram á það að opinber fjárfestingasjóður Sádi-Arabíu sé ekki einn af eigendum félagsins.
Telegraph segir frá þessu í kjölfar þess að fjöldi leikmanna Chelsea er farinn eða á leið til félaga í Sádi-Arabíu.
Sádar hafa sótt og reynt við margar af stærstu stjörnum Evrópu undanfarið og þar að baki er opinberi fjárfestingasjóðurinn.
N’Golo Kante er farinn frá Chelsea til Al Ittihad og þá eru Hakim Ziyech, Kalidou Koulibaly, Edouard Mendy og mögulega fleiri leikmenn liðsins á leið til Sádi-Arabíu einnig.
Todd Boehly og Clearlike Capital keyptu Chelsea í fyrra af Roman Abramovich en vill enska úrvalsdeildin nú fá á hreint að opinber fjárfestingasjóður Sádi-Arabíu komi ekki að eignarhaldinu einnig og að Chelsea sé þannig að koma sér fram hjá Financial Fair Play reglum á ansi vafasaman hátt.