Eddie Nketiah, leikmaður Arsenal, er sagður ósáttur með að Kai Havertz sé að ganga í raðir félagsins.
Heimildamaður breska götublaðsins The Sun segir frá þessu.
Havertz er á leið til Arsenal frá Chelsea á 65 milljónir punda. Nketiah er ósáttur við að sóknarmaður sé að bætast við leikmannahópinn.
Nketiah var varaskeifa fyrir Gabriel Jesus framan af á síðasta tímabili en þurfti heldur betur að stíga upp þegar Brasilíumaðurinn meiddist um langa hríð. Þá skoraði enski framherjinn níu mörk í 39 leikjum í öllum keppnum á síðustu leiktíð.
Nketiah er nú hræddur um að færast neðar í goggunarröðina.
„Eddie er á mikilvægum stað á ferli sínum. Honum finnst hann hafa sannað það að hann geti skorað mörk á efsta stigi og vill spila í hverri viku. En nú ætlar félagið að fjárfesta duglega í öðrum sóknarmanni og nú efast Eddie um framtíð sína hjá félaginu,“ segir heimildamaðurinn.
Crystal Palace, Fulham og West Ham eru öll sögð áhugasöm um Nketiah. Arsenal liggur hins vegar ekkert á að selja leikmanninn sem er á löngum samningi.
„Arteta metur Eddie mikils. Nú er liðið í Meistaradeildinni og hann telur að hann þurfi þrjá topp sóknarmenn. Þess vegna vill hann Havertz, leikmann sem hefur sannað sig í ensku úrvalsdeildinni og Evrópu,“ segir heimildarmaðurinn.