Samkvæmt enskum götublöðum í dag hefur Manchester United beðið Harry Kane fyrirliða Tottenham um að fara fram á sölu frá félaginu.
United vill kaupa enska framherjann í sumar en félagið er meðvitað um það að það er erfitt að eiga við Daniel Levy, stjórnarformann Spurs.
Segir í enskum blöðum að United telji ekki hægt að hefja viðræður við Levy nema Kane láti hann vita að hann vilji fara.
Kane á ár eftir af samningi sínum við Tottenham og engar viðræður hafa skilað neinum árangri hingað til.
Kane er einnig orðaður við Real Madrid en möguleiki er á því að Tottenham haldi honum út næstu leiktíð í þeirri von um að hann skrifi undir. Geri hann það ekki fer hann frítt frá félaginu eftir ár.
Talið er að Tottenham kunni að selja Kane ef það kemur 100 milljóna punda tilboð.