Matthias Bruegelmann ristjóri íþrótta hjá Bild í Þýskalandi hefur beðið þýska knattspyrnusambandið um að reka Hansi Flick úr starfi.
Vonbrigðin á HM í Katar og lélegt gengi í undanförnum leikjum hefur orðið til þess að margir vilja Flick burt.
Á sama tíma grátbiður Bruegelmann hinn öfluga Jurgen Klopp um að hætta hjá Liverpool til að taka við.
„Þýska sambandið verður að taka í gikkinn og skipta um þjálfara,“ segir Bruegelmann.
„Besta lausnin er Jurgen Klopp. Þýska sambandið þarf að berjast fyrir því og fá hann, Klopp kæmi öllum í Þýskalandi í gírinn fyrir Evrópumótið,“ skrifar Bruegelmann en mótið á næsta ári fer fram í Þýskalandi.
„Vinsældir hans myndu verða til þess að þjóðin kæmi með.“
Það er talið nánast ómögulegt að Klopp fari í það að reyna að losna frá Liveprool til að taka við þýska liðinu.