Íslenski landsliðsmaðurinn Arnór Sigurðsson er mættur til Blackburn í ensku B-deildinni. Kappinn skrifaði undir eins árs samning. Arnór er afar sáttur með skrefið.
Arnór gengur til liðs við Blackburn frá CSKA Moskvu. Hann á ár eftir af samningi sínum við rússneska félagið en nýtti sér ákvæði FIFA í annað sinn og ætlar að eyða næsta tímabili hjá Blackburn. Að því loknu er ekki ólíklegt að samningurinn við Blackburn verði framlengdur.
„Liðið talaði fyrst við mig fyrir svona mánuði síðan. Þá var ég einbeittur á að klára tímabilið í Svíþjóð og gera það eins vel og hægt var,“ segir Arnór í samtali við 433.is, en hann hefur undanfarið ár verið hjá Norrköping og staðið sig frábærlega.
Arnór gat ekki verið með íslenska landsliðinu gegn Slóvakíu og Portúgal vegna meiðsla. Á meðan landsleikjaglugganum stóð voru hlutirnir að gerast á bak við tjöldin. Hann býst við að vera klár fljótlega.
„Ég ætlaði að gera allt til að ná þeim leikjum, sem því miður tókst ekki,“ segir Arnór, sem upprunanlega var í hópi Age Hareide.
Blackburn hafnaði í sjöunda sæti B-deildarinnar á síðustu leiktíð og rétt missti af umspilssæti. Arnór heillaðist af félaginu og því sem er í gangi þar. Hann ræddi einnig við Jóhann Berg Guðmundsson, sem hefur spilað í deildinni með Charlton og Burnley.
„Þetta er stór klúbbur. Mig langaði að taka skrefið til Englands. Fyrir mér er það langstærsta sviðið. Ég hef talað við Jóa Berg og fylgst vel með þessum íslensku leikmönnum sem hafa farið til Englands. Það eru þeir sem hafa náð lengst af okkar mönnum. Mig langar að feta í fótspor þeirra.
Eftir að ég talaði við Jóa um hvernig Championship-deildin er og hvernig hún er búin að breytast varð ég mjög spenntur fyrir þessu. Stefna klúbbsins heillaði líka.“
Blackburn er með háleit markmið fyrir komandi leiktíð.
„Ég fann það strax að stefnan hér er sett á úrvalsdeildina og ég tel að Blackburn sé með allt sem til þarf til að ná því markmiði. Ég horfði á nokkra leiki með þeim frá síðasta tímabili. Þeir halda mikið í boltann og stjórna leikjum. Ég er mjög spenntur.“
Arnór sér alls ekki eftir því að hafa tekið skrefið til Norrköping á ný.
„Ég er fullur sjálfstrausts. Það var ótrúlega mikilvægt fyrir minn feril að taka þetta skref. Ég var með aðra möguleika sem voru kannski stærri og borguðu betur en það var þetta sem ég þurfti, að finna gleðina og elska að spila fótbolta aftur.“
Arnór fer ekki leynt með þau markmið að hann ætlar sér að spila í deild þeirra bestu.
„Stærsti draumurinn er að spila í ensku úrvalsdeildinni. Það er stærsta deild í heimi og þangað stefni ég. Jói fór til Charlton 24 ára, sannaði sig þar og fékk skiptin til Burnley. Auðvitað horfir maður á svona hluti því þetta er nálægt manni.
Ég er þvílíkt ánægður með þessa ákvörðun og er spenntur að byrja.“
Arnór var að lokum spurður út í breska matarmenningu.
„Ég byrjaði rólega, fór ekki beint í fish and chips. Ég ætla að vinna mig upp í það.“