Paris Saint-Germain má kaupa Xavi Simons aftur til sín á smáaura í sumar.
Þetta segir félagaskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano.
Hinn tvítugi Simons gekk í raðir PSV frá PSG síðasta sumar og hefur farið á kostum. Miðjumaðurinn hefur skorað 21 mark og lagt upp 12 í öllum keppnum.
Frammistöður Simons hafa vakið áhuga stórliða Arsenal og Manchester United meðal annars.
Samkvæmt nýjustu fréttum er hins vegar klásúla í samningi leikmannsins um að PSG geti keypt hann aftur á aðeins sex milljónir evra.
Klásúlan er þó aðeins virk í júlí og þarf leikmaðurinn að samþykkja að ganga í raðir Parísarliðsins. Ákvörðunin er því algjörlega hans.