KA þarf að spila heimaleik/i sína í undankeppni Sambandsdeildarinnar í sumar í Úlfarsárdal þar sem heimavöllur liðsins fyrir norðan er ekki löglegur í Evrópukeppni. Ekki eru allir sáttir við þetta.
KA mætir Connah’s Quay Nomads FC frá Wales í fyrstu umferð. Fyrri leikurinn fer fram í Úlfarsárdal.
„Þetta er svo dapurt. Það er 2023. Það eru bara komnir staðlar í þetta,“ segir sparkspekingurinn Mikael Nikulásson í Þungavigtinni.
Hann bendir á að tímarnir séu breyttir en íslensk félög þurfi að fylgja með.
„KA spilaði á móti Sofia frá Búlgaríu 1990 á Akureyrarvelli. Nú eru 33 ár liðin og þeir þurfa að spila í Úlfarsárdal. Auðvitað eru staðlarnir orðnir hærri í fótboltanum því hann hefur breyst svo mikið. En á Íslandi getur þú ekki spilað á heimavelli 33 árum seinna því það gerist aldrei neitt hérna.
Að KA þurfi að spila heimaleiki sína í Evrópukeppni í Úlfarsárdal, það er auðvitað bara hræðilegt. Það er ekkert eðlilegt við þetta.“
Mikael baunar á bæjarstjórn Akureyrar.
„Ég veit að þetta er ekki Sævari Péturssyni eða þjálfaranum að kenna. Ég efast ekki um að KA-menn í bæjarstjórn mæti á leiki þegar gengur vel og fljúga jafnvel í bæinn fyrir leikinn á Framvellinum. Ég vona að þeir skammist sín. Þetta er gjörsamlega út úr korti.“