Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA í Lengjudeild karla, hefði fengið að taka pokann sinn ef síðasti leikur gegn Þrótti R. hefði tapast. Þetta kom fram í Lengjudeildarmörkunum hér á 433.is í gær.
ÍA vann leikinn 6-3 eftir að hafa verið 1-3 undir. Skagamenn hafa farið erfiðlega af stað í deildinni en hafa nú unnið tvo leiki í röð, gegn Þrótti og Ægi.
„Staða Jóns Þórs er ekki öruggari en svo að hann hefði verið farinn með tapi þarna,“ segir Helgi Fannar Sigurðsson í nýjasta þætti Lengjudeildarmarkanna.
„Skagamenn eru búnir að hlera nokkra menn. Þetta eru Óli Jó, Gústi Gylfa, Bjössi Hreiðars og Brynjar Björn.“
Hrafnkell Freyr Ágústsson sérfræðingur er hissa á þessu.
„Mér finnst þetta áhugavert og ég bjóst við því sjálfur að Skagamenn myndu standa aðeins lengur með sínum manni. Þeir eru búnir að fjárfesta í honum, hann búinn að fá sína leikmenn og á að koma að þessari uppbyggingu þeirra. Þetta er smá sérstakt.“
Heyrst hefur að ósætti sé innan leikmannahópsins með mikinn spiltíma hins 16 ára gamla Daniels Inga Jóhannessonar, en hann er á leið til Nordsjælland.
„Það er kergja á bak við tjöldin. Leikmenn eru ósáttir og einhverjir þeirra pirraðir á hvað Daniel Ingi er að spila mikið í ljósi þess að hann er að fara,“ segir Helgi.
Hrafnkell bendir á að leikmaðurinn ungi hafi séð til þess að Skagamenn sóttu þrjú stig gegn Ægi á dögunum.
„Þegar þú ert með 18-20 manna leikmannahóp eru alltaf 5-6 pirraðir á bekknum. Þeir eru pirraðir á að hann sé að spila þar sem hann er að fara en Daniel Ingi vann leikinn á móti Ægi. Ég held að þessir gaurar mættu aðeins setjast niður og fá sér kaffibolla.
Daniel Ingi er frábær leikmaður sem Skaginn er búinn að ala upp og hann á skilið sína meistaraflokksleiki áður en hann fer út. Hann er búinn að koma með helling að borðinu á meðan sumir leikmenn á Skaganum hafa ekki komið með neitt að borðinu nema servíettur.“
Hér að neðan má sjá þáttinn í heild.