Íslenska lögreglan handtók hið minnsta einn aðila eftir leik Íslands og Portúgals í undankeppni Evrópumótsins.
Portúgal vann 0-1 sigur þar sem Cristiano Ronaldo skoraði eina mark leiksins undir lokin.
Að leik loknum reyndu nokkrir aðilar að hlaupa í átt að Ronaldo og komust nokkrir langa leið. Einn ungur drengur komst að Ronaldo sem faðmaði kauða og tók mynd af sér með honum.
Aðrir aðilar voru í eldri kantinum og sá blaðamaður 433.is einn aðila í handjárnum og leiddan burt af Laugardalsvelli af lögreglumönnum.
Óvíst er hvaða refsing bíður mannsins en þarf hið minnsta að svara til saka fyrir málið.