Fósturfaðir Guðlaugs lést fyrir helgi en í kjölfarið lék Guðlaugur tvo landsleiki með Íslands, gegn Slóvakíu á laugardag og gegn Portúgal í kvöld.
Þessi ótrúlegi drengur lék frábærlega í báðum leikjum en viðurkennir að það hafi verið erfitt að fara í gegnum þetta og að næstu dagar verði mjög erfiðir.
„Maður hefur reynt að vera best með þeim sem standa manni næst og passa upp á sjálfan mig,“ segir Guðlaugur Victor en móðir hans lést árið 2020.
Hann segist hafa sveiflast upp og niður síðustu daga en þakkar góðan stuðning á erfiðum tímum.
„Það hafa verið sveiflur hjá mér, ég hef reynt að einbeita mér að fótboltanum og svo eru fullt af öðrum hlutum sem eru í kring. Fram undan er erfiður tími.“
„Ég er búinn að fá virkilega góðan stuðning frá liðinu, vinum og fjölskyldu og þjóðinni. Ég er rosalega þakklátur fyrir það,“ segir Guðlaugur.
Viðtalið við Guðlaug er í heild hér að ofan.