Íslenska karlalandsliðið tapaði á grátlegan hátt gegn Portúgal í kvöld í undankeppni EM.
Leikið var á Laugardalsvelli en Ísland var að tapa sínum öðrum leik á stuttum tíma eftir tap gegn Slóvakíu um helgina.
Eitt mark var skorað í leik kvöldsins en það gerði enginn annar en Cristiano Ronaldo fyrir Portúgal.
Markið var skorað í uppbótartíma og var um afskaplega grátlegt tap að ræða. Ísland kláraði leikinn einnig manni færri eftir rauða spjald Willums Þórs Willumssonar er níu mínútur voru eftir.
Arnór Ingvi Traustason ræddi við blaðamenn eftir tapið í kvöld.
,,Þetta er mjög svekkjandi og heppnin var ekki með okkur í þessu verkefni. Góðar frammistöður hjá liðinu í þessum báðum leikjum og það er stígandi í þessu,“ sagði Arnór.
,,Mér leið mjög vel inni á vellinum og fékk mikla hjálp frá liðinu og það var góð holning á liðinu sem gerði mér auðvelt fyrir.“
,,Við fáum núll stig úr þessu verkefni og við erum að gera þetta okkur erfiðara fyrir en við þurfum að fara vinna fótboltaleiki til að eiga séns á einhverju.“