Íslenska karlalandsliðið tapaði á grátlegan hátt gegn Portúgal í kvöld í undankeppni EM.
Leikið var á Laugardalsvelli en Ísland var að tapa sínum öðrum leik á stuttum tíma eftir tap gegn Slóvakíu um helgina.
Eitt mark var skorað í leik kvöldsins en það gerði enginn annar en Cristiano Ronaldo fyrir Portúgal.
Ísland endaði leikinn manni færri en Willum Þór Willumsson fékk að líta tvö gul spjöld og þar með rautt er níu mínútur voru eftir.
Age Hareide, landsliðsþjálfari, ræddi við ViaPlay eftir lokaflautið í kvöld og baunaði þar létt á leikmenn Portúgals.
,,Við hefðum getað fengið þrjú stig gegn Slóvakíu og eitt í kvöld og það sýnir hvernig fótboltinn getur verið. Við stóðum okkur gríðarlega vel varnarlega á meðan gegn Slóvakíu fengum við færin og áttum að vinna,“ sagði Age.
,,Við héldum þeim frá markinu en eftir að hafa lent manni færri var þetta erfitt og einnig í föstum leikatriðum við vorum alltaf aðeins veikari. Ég tel að þetta hafi ekki verið rautt spjald, boltinn var á milli, jafnvel þó hann fer nokkuð hart í tæklinguna. Portúgalarnir eru góðir leikarar og það hjálpar, þeir öskra og væla sem hjálpar ennþá meira. Boltinn var á milli og það var talað um tveggja fóta tæklingu en hann notaði einn fót.“
,,Ég er mjög stoltur af strákunum þetta verkefni hefur gengið vel fyrir sig. Bæði reynslumiklu leikmennirnir og þeir ungu vilja spila fyrir Ísland. Við erum með eitthvað til að byggja á en við þurfum að vera beittari með boltann. Ég er spenntur fyrir leikjunum gegn Lúxemborg og Bosníu í september og vona bara að mínir leikmenn fái að spila með sínum liðum.“