Marius Wolf, leikmaður Borussia Dortmund, hefur tjáð sig um félagaskipti Jude Bellingham til Real Madrid.
Bellingham var staðfestur sem nýr leikmaður Real í vikunni en hann er einn efnilegasti leikmaður heims og hefur verið í dágóðan tíma.
Bellingham kostaði Real 88 milljónir punda en hann lék með Dortmund í þrjú ár og bætti leik sinn gríðarlega á þeim tíma.
Wolf er sjálfur fyrstur til að viðurkenna það en hann sá allt annan leikmann í Bellingham er hann kom fyrst til liðsins frá Birmingham.
,,Ef ég ber hann saman við leikmanninn sem kom hingað fyrst þá erum við að tala um tvo mismunandi leikmenn,“ sagði Wolf.
,,Hann þarf ekki bara að glíma við væntingarnar sem fylgja verðmiðanum og að spila fyrir stærsta félag heims heldur þarf hann einnig að slá leikmenn eins og Toni Kroos og Luka Modric úr liðinu.“