Trent Alexander-Arnold, leikmaður Liverpool, fékk að spila á miðjunni á föstudag er enska landsliðið spilaði við Möltu.
Trent átti góðan leik í 4-0 sigri Englands og skoraði til að mynda frábært mark með skoti fyrir utan teig.
Hann hefur undanfarin ár leyst stöðu í bakverðinum en margir vilja meina að hann væri best geymdur á miðjunni.
Trent býr yfir góðri tækni og góðri sendingargetu en varnarvinna hans hefur oft verið gagnrýnd.
Hann segist sjálfur vera hrifinn af því að spila á miðju vallarins og hver veit nema hann geri það hjá Liverpool næsta vetur.
,,Ég hef ekki spilað þessa stöðu of mikið en mér líður vel í henni og ég nýt mín á miðjunni,“ sagði Trent.
,,Ég get séð sjálfan mig spila á miðjunni. Þetta snýst um að komast í liðið og vera reglulegur byrjunarliðsmaður. Þetta var góð byrjun fyrir mig.“