Íslenska karlalandsliðið er í vondum málum í undankeppni EM eftir leik við Slóvakíu á Laugardalsvelli í kvöld.
Um var að ræða þriðja leik Íslands í riðlakeppninni en áður var leikið við Bosníu og Liechtenstein.
Leikurinn gegn Bosníu tapaðist 3-0 en í kjölfarið unnum við Liechtenstein sannfærandi 7-0 á útivelli.
Alfons Sampsted, bakvörður Íslands, ræddi við blaðamenn eftir 2-1 tap gegn Slóvakíu og var skiljanlega svekktur.
,,Fyrstu viðbrögð eru að við eigum góðan fyrri hálfleik, fyrri hálfleik þar sem við sköpum okkur færi og getum fengið meira út úr honum en við gerðum,“ sagði Alfons.
,,Í seinni hálfleik þá nýtum við ekki það færi að stjórna leiknum og láta þá hlaupa og fyrir vikið missum við aðeins tökin og þeir byrja að skapa meira og leikurinn spilast meira á miðjum vellinum frekar en fyrir framan þeirra mark.“
,,Stemningin eftir leik var súr. Okkur fannst þetta vera fyrri hálfleikur þar sem við gátum sett okkur í betri stöðu en við gerðum en það voru skýr skilaboð frá þjálfaranum að við höfum engan tíma til að hengja okkur á þessu, það er leikur eftir tvo daga gegn virkilega flottu liði.“
Nánar er rætt við Alfons hér.