Williams Kokolo, franskur varnarmaður Burton Albion í ensku C-deildinni, mætti fyrir rétt í gær, en hann er sakaður um þrjár nauðganir gegn sömu konunni.
Meint brot áttu sér stað í febrúar í fyrra. Hinum 23 ára gamla Kokolo er gefið að sök að nauðga 24 ára gömlum nemanda eftir að hún bauð honum í teyti á stúdentagörðum í Birmingham.
Kokolo var ákærður í ágúst í fyrra en hefur verið laus gegn tryggingu hingað til.
Kokolo og meintur þolandi kynntust á stefnumótaforriti áður en þau hittust. Þau fóru upp á íbúð hennar en á meðan hún fór á salernið klæddi hann sig úr öllu nema nærbuxum. Hann braut svo á henni.
Er Kokolo sakaður um að hafa þvingað konuna til að veita sér munnmök auk þess að stunda við hana samfarir gegn vilja meints fórnarlambs. Á hann þá að hafa náð í lítinn kodda, troðið uppí stúlkuna og sagt ítrekað „uss.“
Kokolo yfirgaf svo bygginguna. Stúlkan leitaði til lögreglu eftir að hafa greint fyrrverandi kærasta sínum frá atvikinu.
Í samtali við lögreglu sagði konan að Kokolo hafi komið fram við hana „eins og rusl“ til að ná sínu fram. Hún segir jafnframt að hann hafi ekki iðrast neins og morguninn eftir hafi knattspyrnukappinn sent sér myndband frá nóttunni þar sem hún hraut.
Kokolo neitar sök. Réttarhöld halda áfram.