Arsenal ætlar að losa sig við Nicolas Pepe í sumar. Bæði sala og riftun á samningi koma til greina. Telegraph segir frá.
Pepe gekk í raðir Arsenal frá Lille sumarið 2019 á 72 milljónir punda. Varð hann um leið dýrasti leikmaður í sögu félagins.
Kappinn stóð hins vegar ekki undir væntingum á Emirates og var lánaður til Nice fyrir nýafstaðna leiktíð.
Þar skoraði hinn 28 ára gamli Pepe átta mörk í 28 leikjum. Franska félagið hefur þó ekki áhuga á að halda honum.
Pepe á aðeins ár eftir af samningi sínum við Arsenal en félagið ætlar að losa sig við hann í sumar. Hann er með launahærri leikmönnum félagsins og kemur því jafnvel til greina að rifta samningi hans til að losa hann af launaskrá.
Það væri þó ákjósanlegast fyrir Arsenal ef eitthvað félag býður í hann.