Chris Brazell þjálfari Gróttu var ósáttur með að þurfa að spila inni í Egilshöll gegn Fjölni í Lengjudeild karla fyrir helgi. Þetta var rætt í Lengjudeildarmörkunum hér á 433.is.
Leikurinn var frábær skemmtun og lauk með 2-2 jafntefli.
„Það er hægt að segja að ég sé að afsaka mig en mér finnst þetta fáránlegt. Hvernig getur íslenskur fótbolti þróast ef tvö lið með góða unga leikmenn þurfa að spila inni í júní. Það er ósanngjarnt fyrir bæði lið og ég er fyrst og fremst ánægður með að komast frá leiknum á þessu grasi án meiðsla,“ sagði ósáttur Chris Brazell við Fótbolta.net eftir leikinn gegn Fjölni.
Helgi Fannar Sigurðsson og Hrafnkell Freyr Ágústsson tóku þetta fyrir í Lenjudeildarmörkunum.
„Mér finnst þetta galin tímasetning á þessum ummælum. Hann er að segja þetta þegar það er rok og rigning úti, maður heyrir að heimavöllur Fjölnis sé nánast ónýtur. Hann talar um að þetta sé slæmt fyrir framþróun íslenska boltans en væri ekki miklu verra fyrir framþróun hans að spila á handónýtum grasvelli í roki og rigningu?“ spurði Helgi.
Hrafnkell tók í sama streng.
„Við sáum leik Gróttu og Aftureldingar um daginn. Það var bara bull, þvílíkt rok og menn náðu engri stjórn á boltunum. Mörkin komu eftir mistök. Þarna sáum við mun gæðameiri og skemmtilegri leik inni í Egilshöllinni.“
Umræðan er í spilaranum hér ofar og þátturinn í heild hér að neðan.