Nordin Amrabat, bróðir og umboðsmaður Sofyan Amrabat, hefur gefið í skyn að hann gæti verið á leið til Manchester United.
Amrabat var frábær með Marokkó á HM í Katar en hann er samningsbundinn Fiorentina á Ítalíu en gæti vel farið í sumar.
Erik ten Hag, stjóri Man Utd, þekkir til miðjumannsins en þeir unnu saman hjá Utrecht í Hollandi um tíma.
,,Hann vill komast á toppinn, þú yfirgefur ekki Ítalíu fyrir miðlungslið á Englandi. Hjá Barcelona er hann hátt á lista en þið þekkið fjárhagsstöðu félagsins,“ sagði Nordin.
,,Auðvitað veit maður aldrei hvað gerist. Bróðir minn vill spila á toppnum og horfir mest til Englands og Spánar.“
,,Ég held að Ten Hag sé að leita að framherja þessa stundina og hann vill það mest af öllu. Ég veit hins vegar að Ten Hag er hrifinn af bróður mínum því hann náði fyrst árangri undir hans leiðsögn og samband þeirra er gott.“