Það kom mörgum á óvart þegar Manchester City ákvað að láta bakvörðinn Joao Cancelo fara í janúar.
Cancelo var einn allra mikilvægasti leikmaður Man City um tíma en var lánaður til Bayern Munchen í janúar.
Portúgalinn virðist ekki eiga framtíð fyrir sér hjá Man City og verður að öllum líkindum seldur í sumar.
Pep Guardiola, stjóri Man City, fékk víst nóg af Cancelo er hann ákvað að setja á sig heyrnartól á miðjum liðsfundi.
Guardiola ræddi þar við leikmenn Man City og gaf upplýsingar en Cancelo virtist hafa lítinn sem engan áhuga á að hlusta.
Í kjölfarið ákvað Guardiola að leita til stjórnar félagsins og heimtaði það að Cancelo yrði látinn fara frá félaginu í janúar.