Willum Þór Willumsson var að vonum ansi glaður með að fá kallið í íslenska landsliðshópinn fyrir leikina gegn Slóvakíu og Portúgal síðar í mánuðinum. Hann ræddi við 433.is í dag.
„Ég var búinn að búast við kallinu einu sinni, tvisvar þegar það kom ekki svo ég var mjög glaður þegar það kom,“ segir Willum, en eini landsleikur hans hingað til kom í janúar 2019 undir stjórn Erik Hamren.
Willum átti frábært tímabil með Go Ahead Eagles í Hollandi, en hann kom þangað fyrir ári síðan frá BATE í Hvíta-Rússlandi.
„Maður fann það innan hópsins að maður væri mikilvægur og tölfræðin var mér í hag.
Þetta er miklu sterkari deild. Á fyrsta árinu í BATE var liðið þar sterkara en liðið sem ég er í núna. Deildin er sterkari en liðið ekki mikið betra. En ég held að þetta hafi verið réttur tímapunktur fyrir mig að færa mig og koma mér í sterkari deild í Evrópu. Ég held að Holland henti mér mjög vel. Það er spilaður skemmtilegur fótbolti og ég fýla hann í botn. Þetta var algjörlega rétt skref fyrir mig.“
Willum á ár eftir af samningi sínum við Go Ahead Eagles en veit ekki hvað framtíðin ber í skauti sér.
„Það eru einhverjar vangaveltur. Það verður bara að koma í ljós. Það er einhver áhugi.“
En býst hann við að spila stórt hlutverk undir stjórn Age Hareide í komandi landsleikjum?
„Maður gerir sér alltaf vonir en er ekki með neinar kröfur. En vonandi kemur landsleikur númer tvö í þessum glugga.“