Íþróttafréttamaðurinn, Ríkharð Óskar Guðnason segir að það líti út þannig að KSÍ hafi horn í síðu Guðmundar Þórarinssonar miðjumanns OFI í Grikklandi.
Guðmundur var ekki í fyrsta landsliðshópi Age Hareide sem kynntur var í gær en Guðmundur á að baki 12 A-landsleiki fyrir Ísland.
Oft hefur skapast umræða um Guðmund og landsliðið en hann hefur ekki oft átt upp á pallborð í Laugardalnum.
„Það er eins og KSÍ hafi alltaf haft eitthvað á móti honum,“ sagði Ríkharð í Þungavigtinni í gærkvöldi en Guðmundur hefur oft leyst stöðu vinstri bakvarðar á ferlinum.
Fáir vinstri bakverðir eru í hópnum. „Ég ætla ekki að dæma um það, ég hefði tekið hann,“ sagði Mikael Nikulásson í þættinum.
Ríkharð segir það ótrúlegt að hann sé ekki oftar í landsliðshópnum. „Ótrúlegt að hann sé ekki búinn að vera í öllum þessum hópum,“ segir Ríkharð.