Ísak Bergmann Jóhannesson er afar ósáttur við stöðu sína hjá FC Kaupmannahöfn. Hann ræddi við 433.is á æfingu íslenska landsliðsins í dag.
Ísland mætir Slóvakíu 17. júní og Portúgal þremur dögum síðar í undankeppni EM 2024.
„Þetta er risaleikur. Þetta er „do or die.“ Við verðum að vinna hann. Vonandi getum við fyllt völlinn 17. júní og sýnt fólki að við ætlum að komast á EM,“ segir Ísak um leikinn.
Hann var í aukahlutverki hjá FCK á nýafstaðinni leiktíð og er allt annað en sáttur með það.
„Ég er ósáttur með hvernig hefur verið komið fram við mig í FCK. Ég spilaði til dæmis mjög vel á móti AGF, svo er mér hent aftur á bekkinn. Það er svolítið sagan,“ segir Ísak, en hann byrjaði gegn AGF undir lok tímabils í sigri og stóð sig vel.
„Það er ekki hægt að gera mikið meira en það sem ég gerði á móti AGF.“
En hugsar hann sér til hreyfings í sumar?
„Ég er mjög ósáttur með stöðuna núna. Mér finnst ég ekki fá það sem ég á skilið hjá FCK. Það getur vel verið en nú er ég einbeittur á landsleikina.“
Ítarlega er rætt við Ísak í spilaranum.