Íslenska karlalandsliðið er komið saman til æfinga fyrir leiki gegn Slóvakíu og Portúgal í undankeppni EM 2024. Uppselt er á síðarnefnda leikinn.
Um er að ræða afar mikilvæga leiki. Strákarnir okkar mæta Slóvökum 17. júní og Portúgölum 20. júní.
Það kom Aroni Einari Gunnarssyni landsliðsfyrirliða lítið á óvart að uppselt sé á leikinn við Cristiano Ronaldo og félaga í portúgalska landsliðinu.
„Það var löngu vitað,“ segir hann léttur við 433.is.
Aron bendir á að þó meiri jákvæðni sé í garð landsliðsins nú þurfi að fylgja henni eftir með úrslitum innan vallar.
„Við þurfum samt að búa til hefðina. Þetta er undir okkur komið. Úrslit eru mikilvæg í fótbolta og þar af leiðandi kemur fólkið á völlinn. Þetta er ósköp einfalt. Við þurfum að standa okkur vel og ná í sigur til að fá fólkið með okkur í lið aftur.“
Ítarlega er rætt við Aron í spilaranum.