Åge Hareide, þjálfari íslenska karlalandsliðsins, kynnti í dag sinn fyrsta landsliðshóp frá því hann tók við starfinu í vor. Næst á dagskrá eru leikir gegn Slóvakíu og Portúgal. Norðmaðurinn er brattur fyrir komandi verkefni.
Hareide valdi 25 manna hóp fyrir leikina. Kristian Nökkvi Hlynsson, ungur leikmaður Ajax er í hópnum, en þar einnig Willum Þór Willumsson, sem hefur ekki verið í hópnum lengi.
Birkir Bjarnason sem er leikjahæsti leikmaður í sögu Íslands snýr aftur í hópinn en það gerir Albert Guðmundsson leikmaður Genoa einnig.
Hareide ræddi um það á fundinum að Jóhann Berg Guðmundsson og Aron Einar Gunnarsson væru miðjumenn í hans huga. Hareide hefur á sínum ferli yfirleitt spilað 4-3-3 kerfið.
Búist er við að bæði Aron og Jóhann Bergi byrji leikinn gegn Slóvakíu. Albert Guðmundsson er að mati Hareide tæknilega besti leikmaðurinn í liðinu.
Sá möguleiki er fyrir hendi að Birkir Bjarnason byrji gegn Slóvakíu en þá færi Hákon Arnar á kantinn á kostnað Arnórs Sigurðssonar miðað við líklegt byrjunarlið að mati 433.is.
Hareide ræddi það á fundi sínum í dag að Valgeir Lunddal væri frambærilegur vinstri bakvörður og má gera ráð fyrir honum í þeirri stöðu. Hareide gæti sett Alfons Sampsted inn sem hægri bakvörð, sett Guðlaug Victor Pálsson í miðvörðinn og Hörð Björgvin Magnússon þá í vinstri bakvörð. En það verður að teljast hæpið.
Líklegt byrjunarlið:
Rúnar Alex Rúnarsson
Guðlaugur Victor Pálsson
Sverrir Ingi Ingason
Hörður Björgvin Magnússon
Valgeir Lunddal Friðriksson
Aron Einar Gunnarsson
Jóhann Berg Guðmundsson
Hákon Arnar Haraldsson
Arnór Sigurðsson
Alfreð Finnbogason
Albert Guðmundsson