Pálmi Rafn Pálmason var í skemmtilegu viðtali við Fótbolta.net í gær þar sem hann ræddi endurkomuna í boltann.
Pálmi ákvað að leggja skóna á hilluna eftir síðasta tímabill en hann hafði leikið með KR í fjölmörg ár.
Miðjumaðurinn hefur nú skrifað undir stuttan samning við Völsung og ætlar að klára tímabilið í 2. deildinni.
Hann spilaði sinn fyrsta leik á fótboltaárinu en Völsungur tapaði þar 2-0 gegn Haukum.
Pálmi viðurkennir að hann sé ekki í mikilli æfingu þegar kemur að því að spila leikinn en er þó í fínasta líkamlegu standi.
„Hver maður sér það hérna í dag að ég var ekki með orku í 90 mínútur. Þetta urðu helvíti margar mínútur og ég kvíði morgundeginum,“ sagði Pálmi við Fótbolta.net.
,,Ég hafði mestar áhyggjur af því að ég gæti ekki staðið aftur upp. Ég viðurkenni fúslega að ég er þreyttur.“
Pálmi tekur fram að þetta sé í fyrsta sinn í nokkra mánuði sem hann sparkar í bolta en hann lék nánast allan leikinn í tapinu.