Bruno Fernandes, leikmaður Manchester United, segir að liðið hafi ekki sýnt nógu mikinn kjark gegn Manchester City í gær.
Um var að ræða síðasta leik Man Utd á tímabilinu en liðið tapaði 2-1 gegn nágrönnum sínum í úrslitaleik enska bikarsins.
Fernandes segir að leikmenn Man Utd hafi sýnt Englandsmeisturunum of mikla virðingu og að þeir hafi verið ‘mjúkir’ um langt skeið.
,,Eftir að við skoruðum markið þá áttum við nokkrar ágætis skyndisóknir en við gátum ekki skorað,“ sagði Fernandes.
,,Við fengum á okkur mark snemma í seinni hálfleik og fengum færi í kjölfarið en nýttum þau ekki. City átti sigurinn skilið.“
,,Við vorum of mjúkir og gáfum þeim of mikið af svæði í fyrsta markinu en spyrnan var frábær. Ef leikmennirnir eru nær hvor öðrum þá geta þeir kannski stöðvað þetta en skotið var magnað.“