Manchester City mun freista þess að vinna ensku úrvalsdeildina fjórða árið í röð á næstu leiktíð.
Lærisveinar Pep Guardiola hafa átt ótrúlegt tímabil. Liðið elti Arsenal lengi vel í deildinni en tók fram úr Skyttunum í lokin og varði Englandsmeistaratitilinn. Þá er liðið komið í úrslitaleik bikarsins og Meistaradeildar Evrópu.
„City verður áfram líklegt á næstu leiktíð. Það er besta liðið í ensku úrvalsdeildinni og hefur unnið þrisvar í röð. Það er ansi erfitt,“ segir Sergio Aguero, goðsögn City.
„Pep mun halda áfram að gera það sem þarf til að vera samkeppnishæfur á toppnum. En þetta er úrvalsdeildin og önnur lið munu reyna að skáka þeim.“
Aguero nefnir tvö lið sem gætu skákað City á næstu leiktíð.
„Arsenal er með ungt lið sem á mikið inni. Mikel Arteta mun reyna að bæta í leikmannahópinn og Arsenal verður eitt af liðunum sem munu berjast á toppnum á næstu leiktíð.
Við megum svo ekki gleyma Manchester United. Þeir eru að ná vopnum sínum.“