Fred, miðjumaður Manchester United, var sáttur með tímabil liðsins en hefði viljað spila stærri rullu.
United var á sínu fyrsta tímabili undir stjórn Erik ten Hag. Tókst því bara nokkuð vel til, vann deildabikarinn, er komið í úrslitaleik enska bikarsins og endurheimti Meistaradeildarsæti.
„Liðið hefur staðið sig vel. Sem leikmaður dreymir þig um að vinna mikilvæga titla,“ segir Fred.
„Síðasta tímabil var langt undir væntingum og við vitum það. Þetta tímabil var mun betra.
Ég var svo glaður með að vinna fyrsta titil minn með félaginu. Það sýndi að við erum á réttri leið.“
Fred byrjaði aðeins tólf leiki í ensku úrvalsdeildinni og var oft á eftir mönnum eins og Casemiro, Bruno Fernandes og Christian Eriksen í goggunarröðinni á miðjunni.
„Hvað varðar mína frammistöðu finnst mér ég hafa spilað vel. Ég hefði samt viljað fá fleiri mínútur á vellinum.
Þegar ég var inni á vellinum fannst mér ég gera það sem til var ætlast af mér.“