Hluthafar Manchester United munu hafa mikið um það að segja hvort Mason Greenwood fái að snúa aftur á völlinn í sumar. Hann hefur verið laus allra mála síðustu mánuði.
Greenwood var í janúar á síðasta ári handtekinn og grunaður um nauðgun og ofbeldi í nánu sambandi.
Lögregla felldi hins vegar málið niður eftir að vitni breyttu framburði sínum og ný gögn í málinu komu fram.
Greenwood og konan sem birti myndir og myndbönd af meintu ofbeldi eru saman í dag og eiga von á sínu fyrsta barni.
Eftir að lögregla felldi málið niður hefur Manchester United skoðað málið en Greenwood hefur ekki fengið að æfa eða spila með liðinu eftir að málið kom upp.
Mirror segir að Greenwood gæti mögulega snúið aftur á æfingar í sumar en hluthafar og mögulega nýr eigandi hefur mikið um það að segja.