Hermann Hreiðarsson þjálfari ÍBV vonast eftir því að snúa aftur í enska boltann einn daginn og þjálfa þar. Frá þessu greinir hann í viðtali við Sky Sports í Englandi.
Hermann situr með ÍBV í fallsæti Bestu deildarinnar en liðið er aðeins með sex stig eftir níu umferðir.
Hermann er á sínu öðru ári ári með ÍBV en áður þjálfaði hann Þrótt Vogum og Fylki.
Hermann átti magnaðan feril sem leikmaður á Englandi en hann hefur einnig reynslu af þjálfun þar í landi eftir að hafa verið aðstoðarþjálfari Southend United frá 2019 til 2020.
„Þetta er fjórða tímabilið mitt núna á Íslandi en ég vil fara aftur til Englands og þjálfa í landi fótboltans,“ segir Hermann.
Hermann hefur verið þjálfari í hart nær tíu ár og telur sig vera kláran í slaginn á Englandi.
„Það er markmiðið mitt, ég tel að eftir tíu ár í þjálfun þá sé ég klár í næsta skref þar sem ég þekki leikinn vel. Ég vil upplifa það aftur.“