Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson var í viðtali í Þungavigtinni nýlega. Þar var farið yfir víðan völl og að sjálfsögðu íslenska landsliðið.
Ísland vann Eystrasaltsbikarinn í vetur. Þar vann liðið Litháen í undanúrslitum og Lettland í úrslitum.
Hér á landi var titlinum ekki tekið of alvarlega en Aron segir að annað sé uppi á teningnum í Eystrasaltinu.
„Ég held að Eystrasalts þjóðirnar séu ekkert svaka sáttar með að við séum að gera grín að þessum bikar,“ sagði Aron léttur.
„Þetta er svaka hefð hjá þeim og maður tók eftir því í þessum leikjum þarna úti að þetta skipti þá gríðarlega miklu máli.
Ég held að við ættum bara að vera nokkuð sáttir með þetta þó þessir leikir hafi ekki verið neitt frábær skemmtun.“