Åge Hareide mun kynna sinn fyrsta landsliðshóp þann 6. júní en þá verða ellefu dagar í fyrsta leik liðsins þar sem liðið mætir Slóvakíu á heimavelli í undankeppni Evrópumótsins. Þremur dögum síðar er leikur gegn Portúgal.
Þetta verða fyrstu leikir liðsins undir stjórn. Hareide tók við karlalandsliðinu af Arnari Þór Viðarssyni sem var látinn fara í vor.
Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson ræddi komandi landsliðsverkefni í viðtali við Þungavigtina. Kappinn lék í miðverði í síðasta landsleiknum undir stjórn Arnars Þórs gegn Liechtenstein. Hann býst ekki við að gera það undir stjórn Hareide í júní.
„Mér finnst líklegt að hann færi mig upp á miðjuna,“ segir Aron.
„Við áttum gott spjall. Ég er búinn að venjast báðum stöðum og kann á báðar þó ég eigi eftir að læra margt í hafsentinum.“
Aron hefur oft leikið í miðverði hjá Al Arabi í Katar.
„Mér líður betur á miðjunni og reikna með að vera þar.“