Heimir Guðjónsson þjálfara FH hefur svo sannarlega tekist að snúa við gengi liðsins en FH átti afar erfiða tíma á síðustu leiktíð.
FH er með 16 stig eftir níu umferðir í Bestu deildinni á þessu tímabili en Heimir snéri heim síðasta haust. FH vann fínan heimasigur á HK um liðna helgi.
FH gekk í gegnum erfiða tíma á síðustu leiktíð en Ólafur Jóhannesson, Eiður Smári Guðjohnsen og Sigurvin Ólafsson stýrðu allir liðinu þar sem tíð þjálfaraskipti áttu sér stað í Kaplakrika.
Heimir mætti svo heim og hefur tekist að sækja stigin 16 sem eru jafnmörg og liðið sótti í 20 umferðum á síðustu leiktíð. FH náði í 19 stig í 22 leikjum í fyrra áður en deildinni var skipt í tvennt, þann stigafjölda getur FH jafnað gegn Val í næstu umferð.
Eftir níu umferðir í fyrra var FH með átta stig og því er liðið með tvöfaldan stigafjölda nú undir stjórn Heimis. FH hafði skorað 14 mörk eftir níu leiki í fyrra og fengið á sig 17 mörk.
Í sumar hefur FH skorað 19 mörk í níu leikjum en fengið á sig 18 sem er meira en í fyrra. FH hefur unnið fimm leiki í sumar og hafa allir sigrarnir komið á grasi en eitt jafntefli hefur komiðá gervigrasi en töpin þrjú hafa einnig komið á slíku undirlagi.