Íþróttavikan kemur út alla föstudaga hér á 433.is og í Sjónvarpi Símans. Þar fá þeir Helgi Fannar Sigurðsson og Hrafnkell Freyr Ágústsson til sín góða gesti í hverri viku og ræða það helsta úr heimi íþrótta. Að þessu sinni sat Viðar Örn Kjartansson með þeim.
Albert Guðmundsson var orðaður við AC Milan í vikunni, en hann hefur farið á kostum með Genoa.
„Hann er búinn að eiga frábært tímabil og skora fullt af mörkum. Það er mikilvægt fyrir mann í hans stöðu,“ segir Viðar.
Hrafnkell myndi skilja Albert vel að velja AC Milan.
„Hann hugsar kannski: Ég fæ þennan möguleika aldrei aftur. Og ef þetta gengur ekki getur hann tekið skref til baka en farið samt í lið sem er jafnvel enn betra en Genoa.“
Albert mun snúa aftur í íslenska landsliðið undir stjórn Age Hareide. Viðar er spenntur fyrir því.
„Ég hef mikla trú á honum. Núna er hann að sýna hvað virkilega í honum býr. Hann hefur alltaf sýnt glefsur inn á milli en nú var hann virkilega góður á löngu tímabili. Í landsliðinu 2015-16 hefði hann ekki endilega hentað frábærlega, þar sem var farin leið 1 og spilaður árangursríkur fótbolti. Það þarf bara að finna út hvar þú ætlar að nota hann á vellinum, gefa honum fullt traust og hann mun gera mikið fyrir landsliðið, það er hundrað prósent.“
Umræðan í heild er í spilaranum.